fimmtudagur, mars 27, 2008

28. mars 2008 - Ég hélt að ég myndi aldrei styðja tollinn, en nú er ástæða til þess!

Ég eyddi tveimur áratugum á sjó þar af mörgum árum í millilandasiglingar. Á þessum árum kynntist ég lítillega fjölmörgum tollvörðum og átti nokkur samskipti við þá þegar skipið kom til hafnar á Íslandi og þá aðallega í Reykjavík. Yfirleitt voru samskiptin góð, í versta falli hlutlaus þótt stöku sinnum hafi mönnum hitnað í hamsi eins og þegar tollverðir voru látnir telja sígaretturnar í pökkunum þegar komið var til Reykjavíkur.

Svo hætti ég á sjó 1987 og flutti nokkru síðar til Svíþjóðar og dvaldi þar í nokkur ár. Eftir að ég flutti heim aftur hefi ég oft átt erindi til útlanda og verð ég að játa að í fyrstu var ég hissa á að sjá gömlu “andstæðingana” á Keflavíkurflugvelli þegar ég var að koma heim frá útlöndum. Ég spurði einn gamlan félaga hvað hann væri að þvælast suður í Keflavík í stað sælunnar hjá Tollgæslunni í Reykjavík og svaraði hann því til að vegna ofstjórnunar í Reykjavík hefðu sumir kosið að færa sig um set á öllu manneskjulegri vinnustað.

Ég vil skoða mótmælafund tollvarða á Keflavíkurflugvelli í þessu ljósi. Tollgæslan í Reykjavík og Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli heyrðu undir sitthvort ráðuneytið, en Tollgæslan í Reykjavík heyrir undir Fjármálaráðuneytið. Á móti kemur að Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur starfað undir stjórn sýslumannsins sem áður tilheyrði Utanríkisráðuneyti og síðar Dómsmálaráðuneyti. Mér sýnist það vera hinn raunverulegi tilgangur með breytingunum, að samræma stjórn allra tollgæslumála undir einn hatt, þ.e. Fjármálaráðuneyti.

Þá verður líka ástæða fyrir hinn almenna ferðamann að óttast því ef þarf að hugsa um hag ríkissjóðs í fyrsta lagi og að tollverðir verði látnir eyða öllum tímanum í að reikna innkaup ferðafólks upp úr töskunum til tekjuauka fyrir ríkiskassann, er hætta á að fíkniefnaeftirlitið mæti afgangi.

Því eiga tollverðirnir suðurfrá minn fyllsta stuðning í baráttu sinni fyrir áframhaldi starfi undir stjórn sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli.

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/03/27/tollverdir_motmaela/


0 ummæli:Skrifa ummæli