laugardagur, mars 08, 2008

8. mars 2008 - Afstaða mín til olíuhreinsistöðvarÞegar ég var ung sigldi ég um tíma á milli bekkja í Vélskólanum á tankskipi sem lestaði olíu við endastöðvar olíuleiðsla frá olíulindunum í miðausturlöndum og sigldi með olíuna að þeirri olíuhreinsistöð sem bauð hæsta verðið hverju sinni, oftast stöðva sem lágu í Suður-Evrópu, Ítalíu, Frakklandi, Spáni.

Síðustu dagana hefi ég ítrekað fengið spurninguna hvað mér finnist um olíuhreinsunarstöð á Vestfjörðum, þá væntanlega í ljósi afstöðu minnar til álvera sem ég tel vera jákvæð, enda þörf fyrir aukna áherslu á léttmálma í heiminum, umhverfisins vegna.

Svar mitt við olíuhreinsistöðvum er einfalt. Ég er alfarið á móti slíkri starfsemi hér á landi. Til að geta unnið olíu úr jarðolíu þarf hráefni, þ.e. jarðolíu. Hún fæst með því að kaupa hana á heimsmarkaðsverði. Olíuhreinsunarstöðin þarf því að kaupa jarðolíuna á verði sem er mjög hátt og fer hækkandi í heimi þar sem alltof margar olíuhreinsistöðvar eru til nú þegar. Að reisa nýja slíka stöð fjarri markaðnum er því í andstöðu við skoðanir mínar.

Að fórna Arnarfirði fyrir slíka framleiðslu er önnur heimska. Ég gef ekki mikið fyrir olíubryggju utan við Hvestu um hávetur enda væri slík bryggja nánast sem fyrir opnu hafi, galopið til norðvesturs en langt til lands í norðri og norðaustri. Ekki er um að ræða að fá heimamenn til að vinna við framleiðsluna því þeir eru löngu farnir í burtu flestir hverjir. Það þarf því að flytja inn vinnukraft.

Það eru mörg önnur rök gegn olíuhreinsistöð aðallega umhverfisrök, en sem ég nenni ekki að þylja upp hér. Um leið vil ég benda á stórkostlegasta fuglabjarg Evrópu sem um leið er vestasti oddi Evrópu. Af hverju er Látrabjargið sem utangátta í umræðunni um atvinnutækifæri í Barðastrandarsýslu? Það er eitthvert stórkostlegasta vannýtta ferðamannatækifæri á Íslandi þótt miðað sé við að ekki verði traðkað um of á náttúrunni þar.

-----oOo-----

Ég óska öllum konum til hamingju með daginn


0 ummæli:Skrifa ummæli