þriðjudagur, mars 25, 2008

25. mars 2008 - 4000 eða 4306 eða 4488 eða 4796 eða....

Bandaríkjamenn hafa gefið það út að 4000 bandarískir hermenn hafi fallið í Írak frá því innrásin hófst þar fyrir fimm árum. Ekki ætla ég að rengja þessa tölu, enda eru Bandaríkjamenn bestir við að telja sín eigin lík, þ.e. þau lík sem hafa fundist og verið skilað í bandaríska kirkjugarða. En þessi tala miðast bara við bandaríska hermenn í Írak og sem hafa látist innan viss tíma frá því sumir særðust. Þeir sem létust síðar af völdum sára sinna eru ekki taldir með, ekki frekar en þeir Íslendingar sem látast meira en mánuði eftir bílslys.

Í reynd hafa 4306 vestrænir hermenn fallið í Írak ef hermenn þeir sem sendir hafa verið á vegum húskarla Búsh eru taldir með, Bretar, Danir, Ítalir og fleiri sem áttu ekkert vantalað við írösku þjóðina, en var samt fyrirskipað að taka þátt í innrásinni í Írak. Ekki veit ég hversu margir vestrænir hermenn hafa að auki fallið í Afganistan, en tala bandarískra hermanna sem fallið hafa þar nemur nú 488 hermönnum.

Ofan á þetta má bæta við 29.451 bandarískum hermanni sem samkvæmt opinberum tölum hefur særst í Írak á síðustu fimm árum. Talið er að sú tala sé mun hærri.

Þessar tölur eru þó smáræði við þær hörmungar sem Íraska þjóðin hefur mátt þola í tilraunum Bandaríkjamanna og leppa þeirra til að frelsa þjóðina frá sjálfri sér og Saddam sáluga Hussein. Samkvæmt Iraqian Body Count eru skráð dauðsföll orðin nærri 90.000, en aðrar tölur sem telja ekki einungis þá sem fallið hafa beint af völdum styrjaldarinnar, heldur einnig þá sem fallið hafa af óbeinum völdum stríðsins, eru komnar upp í 1.191.216.

Það eru enn til menn sem reyna að réttlæta þessa slátrun á fólki.

http://antiwar.com/casualties/


0 ummæli:Skrifa ummæli