föstudagur, mars 14, 2008

14. mars 2008 - Ég er í vondum málum!

Í gær var Hannes Hólmsteinn Gissurarson dæmdur til greiðslu skaðabóta fyrir að nota orð Halldórs Kiljan Laxness í skrifum sínum um skáldið. Í sjálfu sér skil ég vel að ekkja og börn Halldórs hafi stefnt Hannesi, enda eru lífsskoðanir Hannesar í ósamræmi við lífsskoðanir skáldsins og nánustu ættingja hans auk þess sem hann skrifaði þriggja rita ævisögu Halldórs án samráðs og í andstöðu við fjölskylduna. Samt er ávallt spurning hvort höfundarlög eru ekki fullströng þegar um er að ræða tilvitnanir í umsagnir manns um sjálfan sig?

Mér varð það á að taka heila málsgrein Halldórs Kiljan Laxness um öryggismál og birta á blogginu mínu í fyrradag og veitti ekki af, því þótt orð hans séu um 64 ára gömul, þá sanna þau að alltof fátt hefur verið gert í vinnuverndarmálum Íslendinga þótt vissulega hafi stór skref verið tekin á síðustu áratugum.

Því á ég mér þá ósk að æskuvinkonur mínar og móðir þeirra úr Mosfellsdalnum fari nú ekki að beita sömu úrræðum á mig vesæla og á Hannes Hólmstein. ;)


0 ummæli:Skrifa ummæli