miðvikudagur, mars 19, 2008

20. mars 2008 - Af Íraksstríði

Það er skelfilegt að sjá tölurnar um alla þá Íraka sem hafa misst lífið vegna innrásar Bandaríkjanna í Írak fyrir réttum fimm árum síðan. Samkvæmt vefsíðunni http://antiwar.com
er talan nú komin upp í 1.189.173 manneskjur sem fallið hafa, beint eða óbeint, af völdum þessarar styrjaldar sem studd var af núverandi Seðlabankastjóra sem og starfsmanni norrænu ráðherranefndarinnar.

Ekki er hægt að kenna því um að þeir hafi ekki vitað betur. Stærsti hluti íslensku þjóðarinnar vissi betur og tók afstöðu gegn þessari viðbjóðslegu innrás í fjarlægt land við botn Persaflóa. Bandaríkjamenn vissu líka betur, en krafan um olíugróða varð skynseminni yfirsterkari. Afleiðingin er ekki bara að olíuverðið hefur aldrei verið hærra, heldur yfir milljón látnir. Þessar 1.189.173 manneskjur voru líka fólk með tilfinningar, vonir og kærleika. Þá eru ógleymdar kannski hátt í tuttugu milljónir sem eiga um sárt að binda vegna innrásarinnar því flestir Írakar hafa misst einhvern náinn ættingja.

Það eru komin fimm ár frá innrásinni sem aðeins átti að taka nokkra daga. Allir vita nú hvernig fór, líka þeir fáu sem enn gorta sig af glæpnum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli