þriðjudagur, mars 18, 2008

19. mars 2008 - Sama gamla fertuga rullan

Ég fékk nostalgíukast er ég heyrði í hagfræðingi LÍÚ í útvarpinu á þriðjudaginn vera að dásama gengishrunið síðustu dagana. Alveg eins og í gamla daga þegar útgerðarmenn kröfðust gengisfellinga og Kristján Ragnarsson hágrét í beinni útsendingu frammi fyrir alþjóð.

Ég minnist gengisfellinganna 1967 og 1968 þegar dollarinn meir en tvöfaldaðist í tveimur stökkum og þúsundir Íslendinga flúðu land til Svíþjóðar og Ástralíu og hafa margir ekki enn snúið heim. Þá varð kreppa í þjóðfélaginu enda öll eggin í sömu körfunni. Einnig minnist ég þess þegar frystihúseigendur í Vestmannaeyjum fóru í verkfall sumarið 1978 og lokuðu frystihúsunum þar til gengið hafði verið fellt. Að sjálfsögðu hlýddi ríkisstjórnin yfirboðurum sínum. Þar með stöðvaðist uppbyggingin í Eyjum eftir gosið og við þurftum að sigla með aflann úr mokfiskiríi.

Við höfum nú þurft að horfa upp á hrikalegan aflabrest af mannavöldum, fyrst aflabrest á þorski, síðar á loðnu. Ef þetta hefði átt sér stað fyrir 40 árum hefði kreppan orðið mun verri en hún varð þá. Það hefur hinsvegar mikið breyst í þjóðlífinu frá því í lok sjöunda áratugarins, m.a. mikil uppbygging stóriðju en einnig mikil uppbygging á mörgum öðrum sviðum eins og verslun og ferðaþjónustu.

Við getum fyrir bragðið haft gaman af þessari rödd fortíðar sem heyrðist í útvarpinu og þakkað fyrir að búið er að reisa fleiri undirstöður undir atvinnulíf þjóðarinnar en var fyrir 40 árum síðan, ári áður en fyrsta álverið tók til starfa á Íslandi þótt vissulega sé erfitt að horfa upp á þessa niðursveiflu í hagkerfinu sem nú hefur átt sér stað.


0 ummæli:







Skrifa ummæli